Að lifa með hljóðóþoli: „Síðustu tíu árin hef ég lifað í tónlist.“

Síðustu tíu árin um það bil hef ég lifað í tónlist.

Ég er allar stundir með á mér tæki fullt af lögum sem hafa bjargað mér. Þetta tæki þjónar mér líkt og hlið að öðrum heimum. Eða öllu heldur er það tilfellið þangað til það bilar.

Dagurinn sem hliðið mitt bilar hefur óendanlega þýðingu. Hitinn er yfir þrjátíu gráður. Ég geng í gegnum garð sem er eins og haf úr gulu grasi. Pappírskennd blöðin kitla leggina. Dagurinn lyktar af bruna frá grillinu við næstu blokk. Ég er að leita að tjörn með tæru eða grænu vatni.

Ég er líka með vatn í pokanum mínum ásamt bókum og hliðinu mínu. Það gerist þegar brattinn á stígnum eykst: kuldi nístir fæturna og ég átta mig á að það lekur vatn úr pokanum mínum.

Ég skil áður en ég kíki í hann. Áður en ég fiska upp hliðið og sé að skjárinn er líflaus í samanburði við speglandi bakhliðina. Ég ýti á slökkva og kveiki aftur á tækinu. Þurrka það á pilsinu. Ýti á alla takka á skífunni og slæ því í lófann.