Ég heiti Rana..Ég er 32 ára arkitekt og er sem stendur í meistaranámi. Ég hef ekki verið greind með hljóðóþol en samt var hljóðóþol það hugtak sem birtist þegar ég leitaði að lausn á stöðu minni.
Þetta byrjaði allt þegar ég var 10-11 ára gömul. Ég varð fyrir mikilli örvun vegna tiltekinna hljóða í umhverfinu og í hvert sinn sem þessi hljóð heyrðust reyndi ég að forða mér úr aðstæðunum eða frá hljóðvaldinum. Ég forðaðist að borða með öðru fólki í hljóðlátu umhverfi svo framarlega sem ég veit en bara hugsunin um matarhljóðin frá öðru fólki pirraði mig. Þessi hljóð sem fóru stöðugt í taugarnar á mér urðu á endanum til þess að ég gat ekki myndað eðlileg tengsl við manneskjuna sem bjó til hljóðin, sérstaklega þegar við borðuðum saman. Með aldri hef ég lært að þola aðstæðurnar en ég myndi gjarnan vilja lýsi því hversu mikil áhrif þetta hafði á mig sem barn.
Ég var 12-13 ára og var mjög spennt að eyða tíma með bestu vinkonu minni og fjölskyldu hennar í fríi. Besta vinkona mín og fjölskylda hennar bjuggu í annarri borg og ég þurfti að búa heima hjá þeim í tvær vikur. Allt var frábært nema þegar við vorum að borða saman. Þau höfðu ýmsar hefðir líkt og að borða allar máltíðir saman og ég get ekki sagt að þau hafi passað sig á hljóðunum í þeim þegar þau voru að borða. Ég man að þetta truflaði mig mikið en að ég gat ekki gert neitt við því. Þegar öllu var á botninn hvolft var ég 12 ára og gestur á heimili þeirra. Þegar tíminn leið þoldi ég ekki að borða með þeim og gat á endanum ekki borðað neitt þótt ég væri frekar svöng. Ég man að móðir vinkonu minnar hafði svo miklar áhyggjur af ástandinu á mér að hún hringdi í foreldra mína til að spyrja hvort það væri allt í lagi með mig. Eftir 15 daga hjá þeim kom ég heim og hafði þá tapað mikilli þyngd. Fríið sem ég eyddi með bestu vinkonu minni og fjölskyldu hennar var líkast martröð og við höfum aldrei hist eftir það, þar sem að í hvert sinn sem ég sá hana var ég minnt á þetta frí.
Því miður eru það ekki bara matarhljóð sem valda mér áreiti. Ég bjó á heimavist í um eitt og hálft ár á meðan ég var í háskóla. Þetta var einhver erfiðasti tími í lífi mínu og hefur grætt mig nokkrum sinnum. Ég þurfti að deila öllum mögulegum aðstæðum með öðrum nemendum á meðan ég bjó á heimavistinni. Ég þurfti að deila herberginu sem ég bjó í, ég þurfti að læra í sameiginlegu rými og allir á heimavistinni þurftu að borða saman. Eins og ég minntist á þá þurfti ég að læra að þola matarhljóðin en ég get ekki sagt það sama um aðra hluti. Til dæmis að læra í sameiginlegu rými reyndist mér alltaf erfitt. Hljóð líkt og pennasmellir, sláttur á lyklaborð og músarsmellir reyndust mikið áreiti fyrir mig. En ég gat ekki flúið neitt annað frá þessum hljóðvöldum. Herbergisfélagar mínir voru einnig að læra til arkitekts og við urðum að eyða miklum tíma í tölvunni við hönnun bygginga og þeir lærðu í herberginu sem við deildum af og til. Jafnvel ef ég reyndi að forða mér úr aðstæðunum þá eltu þær mig þar sem hvergi var hægt að finna hljóðlátt herbergi. Ég man að ég læsti mig inni á baðherbergi nokkrum sinnum og grét úr mér augun af því að ég réð með engu móti við aðstæðurnar. Á þessum tíma forðaðist ég að tala við annað fólki um ástandið á mér þar sem ég hélt alltaf að ég væri vandamálið og ég vildi ekki vera vandræðavinur.
Pirrandi hljóð geta orðið á vegi mínum hvenær sem er. Að vaxa úr grasi með hljóðóþol hefur gert mér ljóst að ég get ekki breytt heiminum í kringum mig hvað varðar hljóðáreiti en að ég get haft áhrif á athyglina sem ég veiti þessum hljóðum. Stundum get ég dregið athyglina frá hljóðáreitinu en það er ekki alltaf auðvelt fyrir mig. Til dæmis þegar ég nota almenningssamgöngur get ég hlustað á róandi tónlist og útilokað þannig önnur hljóð í umhverfinu og þar með forðast mögulegt hljóðáreiti. Þetta er lausn sem ég fann eftir hræðilega lífsreynslu. Þegar var í menntaskóla þurfti ég að nota almenningssamgöngur til að komast í skólann. Einu sinni mjög snemma morguns var samferða mér gamall maður með hatt. Ég áttaði mig á að gamli maðurinn átti við eitthvað vandamál að stríða sem olli því að hann talaði með rödd sem ég get ekki lýst enn þann dag í dag. Ég hugsa að hljóðin sem líkjast mest hljóðunum í honum séu nefhljóð. Því miður hafði ég gleymt eyrnatólunum mínum heima þennan dag af því að ég var að flýta mér. Ég barðist við sjálfa mig og reyndi að ná tökum á reiðinni og reyndi að missa ekki stjórn á mér og öskra. Ég hélt stjórn á mér með kreppta hnefa þangað til maðurinn yfirgaf vagninn. Það versta sem getur gerst fyrir mig er að verða fyrir hljóðáreiti snemma að morgni til. Slíkt gæti eyðilagt allan daginn og komið mér í virkilega vont skap það sem eftir lifir dags. Þannig að daginn sem ég varð á vegi gamla mannsins með hattinn þá var restin af deginum ónýt líkt og gerist ítrekað ef ég verð fyrir hljóðáreiti. Mörgum árum síðar lenti ég aftur í sama strætó og maðurinn en í þetta skipti bjó ég að reynslunni og var með eyrnatólin með mér. Ef satt skal segja þá athuga ég í hvert einasta skipti sem ég fer út úr húsi hvort eyrnatólin séu ekki örugglega í töskunni minni.
Önnur tegund hljóðs sem veldur mér miklu áreiti þannig að ég vara annað fólk við eru matarhljóð, sérstaklega þegar verið er að tyggja tyggjó. Það er ófrávíkjanleg regla hjá mér að yfirgefa herbergið þegar ég lendi í slíkum aðstæðum. Ég á auðvelt með að vara fólk við þegar kemur að tyggjói þar sem flest fólk sem ekki glímir við hljóðóþol pirrar sig einnig á hljóðinu í tyggjói. Þannig er það auðveldara að kvarta yfir þessu hljóði en öðru hljóðáreiti. Með öðrum orðum þá veldur slíkt ekki því að ég sé stimpluð sem „skrítin, vandræðagepill, klikkuð“ líkt og gæti gerst við aðrar aðstæður.
Ef satt skal segja þá er þetta eitt af því erfiðasta við að líða fyrir hljóðóþol. Mér finnst sem ég búi við stöðugan kvíða gagnvart því að vera „misskilin“ af öðru fólki. Þetta er ástæðan fyrir því að ég reyni oftast að halda aftur af mér og geri mitt besta til að reyna að leiða hugann frá hljóðáreiti. Í þau skipti sem mér mistekst að halda aftur af mér og leiða hugann að öðru verður það til þess að ég fjarlægist fólkið sem kemur mér í þannig aðstæður. Jafnvel þótt það sé mér þungbært, þá veit ég að það er ekki til lækning við hljóðóþoli og að ég er vön að lifa á þennan hátt.