H

H. er 26 ára karlmaður sem ákvað að leita sér hjálpar vegna vaxandi einkenna þunglyndis, kvíða, þráhyggju og hljóðóþols. Einkennin sem hann hefur lýsa sér meðal annars sem mikilli örvun vegna tiltekinna hljóða, skorti á áhuga á hlutum sem hann hafði áður gaman af, að geta ekki tekið þátt í fjölmennum viðburðum svo sem fjölskyldumáltíðum, einbeitingu að hljóðum innanhúss, svartsýni, félagskvíða og miklum svita þegar hann tekur þátt í félagslegum viðburðum. H. er með háskólamenntun og hefur unnið í tvö ár í opinberri þjónustu og býr með fjölskyldu sinni.

H. ólst upp við óreiðu þar sem hann varð vitni að líkamlegri og tilfinningalegri misbeitingu og þar sem hann var einnig fórnarlamb slíkrar misbeitingar sem barn. Eftir erfiða barnæsku byrjaði hann að eiga erfitt með félagslegar aðstæður og tapaði sjálfstrausti. H. hefur lýst því að hafa búið við einmanaleika á unglingsárum sem afleiðingu af þeirri niðurlægingu og útilokun sem hann upplifði hjá fjölskyldu sinni. H. hefur skilgreint móður sína sem manneskju sem hefur afar þunglyndisvekjandi áhrif og að hún sé síkvartandi. Þess utan hefur hann minnst á að faðir hans var greindur með vænisýki og sótti meðferð vegna röskunarinnar. H. er ekki eina barnið í fjölskyldunni sem á erfitt með andrúmsloftið innan hennar sem versnaði um allan helming þegar systur hans fluttu burt til að fara í háskóla og gifta sig.

Einkenni hljóðóþolsins eru einkar slæm á kvöldin í hvert skipti sem hann þarf að borða kvöldmat með föður sínum. Matarhljóð pabba hans virka sem áreiti og leið H. til að glíma við það er að læsa sig inni í herbergi og einangra sig frá mögulegu áreiti. H. finnur fyrir spennu og upplifir þrálátar hugsanir í hvert sinn sem hann verður fyrir hljóðáreiti sem veldur honum svefntruflunum og kemur í veg fyrir að hann geti slakað á í kjölfarið. Venjulega varir spennan sem hann upplifir vegna hljóðáreitis fram á næsta dag. H. á í erfiðleikum með að þola hljóðin frá samstarfsfélögum sínum, svo sem slátt á lyklaborð, músarsmelli og matarhljóð í hádeginu. Hann er venjulega mjög fljótur að yfirgefa matsalinn og skrifstofuna vegna einkenna hljóðóþols. H. hefur ekki borðað vel síðan einkennin versnuðu sem hefur leitt til annarra heilsuvandamála svo sem sífellds svima, ógleði og máttleysis. Þess utan greindi H. frá því í fyrsta meðferðarviðtali að hljóðóþolið hafi leitt til þess að sjálfsvirðing hans hafi minnkað. Hann var settur í meðferð gegn þunglyndi sem varði í þrjú ár en leiddi ekki til nægjanlegs bata vegna skorts á félagslegum stuðningi og óreglulegri notkun lyfja.

Þegar H. var 26 ára byrjaði hann í sálfræðimeðferð og hann segir að hugræn atferlismeðferð hafi reynst honum gagnleg, sérstaklega hvað varðar að þjálfa hugann í glímu við hljóðáreiti og að hann hafi orðið meðvitaður um hugræna röskun sína. H. hefur lært að ná stjórn á líkamanum og hefur áttað sig á tengslunum á milli félagskvíðans og undirliggjandi neikvæðrar sjálfskoðunar. Hann sigraðist á vanlíðaninni vegna hljóðáreitis með öndunaræfingum gegn kvíða sem hann beitti þegar hann upplifði einkenni hljóðóþols sem orsökuðu kvíðann. Til viðbótar hefur H. lýst því hvernig hugræn atferlismeðferð og hugræn þjálfun hefur reynst gagnlegt til að róa tilfinningarnar sem hann finnur fyrir, svo sem hjálpleysis og reiði.