Kona kvíðir fyrir jólamatnum þar sem sjaldgæft ástand veldur mikilli reiði hjá henni þegar fjölskyldan hennar borðar

Kona með sjaldgæfa röskun sem veldur því að hún fyllist reiði ef hún heyrir matarhljóð lýsir því hversu mikið hún kvíðir jólamatnum, einu máltíðinni sem hún borðar með fjölskyldunni. Louise Lansbury er 32 ára og hefur lifað með hljóðóþoli, ofurnæmni gagnvart hljóði, allt sitt líf.

Ástandið hefur valdið því að hún dvelur langdvölum í svefnherberginu en þótt hún eigi erfitt með margskonar hljóð þá á hún sérstaklega erfitt með matarhljóð í öðru fólki. „Ég hef alltaf haft mjög viðkvæma heyrn, hlutir hafa alltaf virst háværari fyrir mig en aðra í kringum mig,“ segir Louise.

Þegar ég varð eldri áttaði ég mig á því að ákveðin hljóð byrjuðu að valda mér reiði og síðustu 10 árin hefur þessi reiði breyst í ofsa. Þegar ég uppgötvaði að til væri ástandið hljóðóþol var ég strax viss um að þetta væri það sem ég byggi við frá unga aldri.

Ég forðast af öllum mætti að borða með fólki, reiðin bólgnar samstundis upp og ef ég fjarlægi mig ekki úr aðstæðunum gæti ég ráðist á einhvern. Það er einfaldlega þannig að þegar einhver er að borða (og þarf ekki endilega að vera mér við hlið) þá er eins og viðkomandi sé alveg upp við eyrað á mesta hljóðstyrk.